Opið bréf til Hafnfirðinga

KÆRU Hafnfirðingar! Erindið er að kanna hug ykkar til þess hvort og þá hvernig við Flateyringar gætum átt samleið með ykkur í næstu framtíð. Forsagan er sú, að við Flateyringar tókum þá frjálsu ákvörðun um mitt ár 1996 að ganga til sameiningar við sveitarfélögin Ísafjarðarkaupstað, Suðureyrarhrepp, Þingeyrarhrepp, Mýrahrepp og Mosvallahrepp. Sameiningin var gerð í þeirri góðu trú, að hún yrði öllum til góðs í stærri og sterkari heild. En – því miður er málum þannig háttað nú um stundir, að núverandi stjórnendur sveitarfélagsins eru margir þeirrar skoðunar, að til þess að halda sjó skuli gripið til þess örþrifaráðs að herða ólina á jaðarbyggðunum.

Nýjasta útspil þeirra í þeim efnum er að leggja niður unglingastig grunnskólanna á Flateyri og Suðureyri og flytja krakkana hreppaflutningum á Ísafjörð. Ráðstöfun þessi er okkur Flateyringum lítt að skapi, eins og skýrt hefur komið fram á fundum undanfarið.

Við lítum svo á, að byggðin á Flateyri sé ekki – og hafi aldrei verið – byrði á hinu sameinaða sveitarfélagi. Hér er stöðug atvinna og frekar skortir húsnæði en hitt. Helst vildum við Flateyringar sameinast sveitarfélagi sem metur okkur að verðleikum – sveitarfélagi sem áttar sig á því, að þau verðmæti sem við leggjum í púkkið standa fyllilega undir þeim væntingum sem gerðar voru og engin ástæða til að skerða neina þjónustu af þeim sökum.

Kæru Hafnfirðingar! Nú er mál að linni. Okkar heitasta ósk er sú, að við getum átt samleið með viti bornu fólki. Við treystum okkur til að fullyrða, að flestir Flateyringar eru Hafnfirðingar inni við beinið. Við bendum á, að annar okkar var í hreppsnefnd Flateyrarhrepps og fékk það samþykkt á einum af síðustu fundum hreppsnefndarinnar fyrir sameiningu, að Flateyri gerðist vinabær Hafnarfjarðar. Hinn sami var í nefndinni sem ákvað sameininguna á sínum tíma og studdi hana þá heils hugar. Því miður hefur tíminn leitt í ljós að orð héldu ekki.

Við Flateyringar erum stoltir. Þröskuldur okkar er hár og þrautseigjan mikil. Við vitum að Hafnfirðingar eru af sama meiði. Þess vegna spyrjum við í fullri einlægni, hvort ekki sé rétt að við ruglum saman reytum okkar.

Það er vissa okkar, að þegar þið hafið skoðað kosti og galla sameiningar Hafnarfjarðar og Flateyrar í eitt sveitarfélag munið þið komist að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að stíga skrefið og njóta þess sem Önundarfjörður hefur að bjóða.

Ef af þessu yrði væri þungu fargi létt af bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og fylginautum hans. Jafnframt má ætla, að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga komi tvíefldur til starfa fyrir þetta nýja sveitarfélag, rétt eins og öll hin.

Tekið skal fram, að enn sem komið er höfum við ekki fengið formlegt umboð frá Flateyringum í þessu máli, enda höfum við ekki leitað eftir því. Við vitum samt að liðsfylgdin er almenn. Varðandi sameiningu sveitarfélaga sem ná ekki saman landfræðilega, líkt og hér um ræðir, má minna á tvær nýlegar sameiningar: Annars vegar Vesturbyggð, þar sem Tálknafjarðarhreppur aðskilur Patreksfjörð og Bíldudal, og hins vegar Reykjavíkurborg, þar sem Mosfellsbær aðskilur Reykjavík og Kjalarneshrepp hinn gamla.

Með vinsemd og virðingu.

SIGURÐUR J. HAFBERG,

Ólafstúni 7, Flateyri.

VALGEIR ÓLAFSSON,

Ólafstúni 12, Flateyri.

Frá Sigurði J. Hafberg og Valgeiri Ólafssyni:


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband